Translation missing: is.accessibility.skip_to_text

Translation missing: is.localization.language_label

Fréttir

SHEIN á ekki heima í hringrásarhagkerfinu
SHEIN á ekki heima í hringrásarhagkerfinu

SHEIN vörur - meðhöndlist sem spilliefni


Fataflóra Hringekjunnar inniheldur mjög breitt úrval af alls kyns fatnaði og fylgihlutum frá öllum verðflokkum og ólíkum merkjum - í starfseminni kynnumst við nýjum viðskiptavinum og fáum frá þeim skammt af fatnaði til endursölu á nánast hverjum degi. Neysla á fatnaði hefur hraðað mikið síðustu ár, og hefur gert síðan í kringum aldamótin. Mikil áhersla hefur verið lögð á ný föt, sem fara hraðar og hraðar úr tísku, sem kallar á meira af nýjum fötum. Verðin hafa lækkað með verri textíl og gæðum - sem og lægra kaupi til þeirra sem framleiða fötin. Þessi þróun hefur orðið til þess að verðskyn okkar á fatnaði er að miklu leyti úr takt við það sem raunverulega felst í framleiðslunni.

SHEIN vörur hafa nú verið að koma inn í endursölu í Hringekjunni í auknum mæli, sem þýðir að markaðssetning þeirra sem fer aðeins fram á netinu, er að skila sér. Það getur verið þægilegt að geta keypt eina sendingu af miklu magni af ódýrum fatnaði þegar úrvalið á nýjum fatnaði getur verið takmarkað hér á landi, sérstaklega í ódýrari verðflokkum. Færst hefur í aukana að fólk nýti sér þennan kost, sumir kaupa saman sendingu, og sleppa þannig við mikla fyrirhöfn og auka sendingarkostnað. Við teljum þetta hættulega þróun - þar sem upplýsingar og samtal um neikvæðar hliðar merkisins geta verið vandfundnar, eða fölna í samanburði við blekkjandi auglýsingar.

Við í Hringekjunni höfum átt mörg samtöl um flíkur og umfang SHEIN og annarra fast-fashion fyrirtækja, þar sem starfsemin okkar gengur að hluta til út á að endurnýta og selja allar þessar umfram flíkur sem koma frá nokkrum risa framleiðendum. Magnið er oft yfirþyrmandi, en við teljum að endursala á þessum vörum á góðu verði, sporni að einhverju leyti við eftirspurn á því að kaupa nýjar flíkur sem viðhalda okkur í  fast-fashion hjólinu. 

Nokkrir punktar sem vert er að kynna sér..

Framleiðsla og markaðssetning SHEIN er margfalt meiri en annarra fast-fashion fyrirtækja eins og til að mynda H&M eða Primark og viljum við þess vegna draga mörk þegar kemur að verslun með heilsuspillandi vörum sem innihalda eiturefni á borð við blý og PFAS í gríðarlegum mæli og langt yfir leyfilegum mörkum - en skilmálar Hringekjunnar taka fram að öll sala á heilsuspillandi vörum sé bönnuð, og falla vörur SHEIN undir eitraðan textíl. Í Kanada er reglubundið hámark af blýi  í fatnaði 90mg/kg en rúmlega 1700mg/kg fundust í fatnaði frá SHEIN við rannsókn eða um 18 fallt leyfilegt magn. Vinnuaðstæður þeirra sem framleiða fötin eru einnig hættulega slæmar, en fólk vinnur að meðaltali 18 klst. og fá stundum aðeins einn frídag í mánuði. Hver starfsmaður vinnur undir þvingunum og nýtur engra grunnréttinda eins og við fáum að venjast hér á landi. Starfsfólk fær greitt eftir afköstum - en margir eru að framleiða hátt í 500 stk. af flíkum daglega. Heimildarmynd frá bresku sjónvarpsstöðinni ‘Channel 4’ gaf nýlega innsýn inn í þessar aðstæður og hvað starfsfólk þarf að þola í verksmiðjum tískurisans. Heimildarmyndina og nánari umfjallanir um þessi málefni má finna hér fyrir neðan.

Fyrsta skref er að upplýsa viðskiptavini okkar - og vekja fólk til umhugsunar um notkun á fatnaði og hvaða áhrif hann getur haft á okkar daglega líf og heilsu. Hvers vegna kaupum við fötin sem við kaupum, og hvernig notum við þau? Þar fyrir utan, þurfum við einnig að hugsa um hvaða áhrif fötin sem við kaupum hafa á aðra, fólkið sem framleiðir fötin, og jörðina okkar. Það er ljóst að það er nóg til af fötum og textíl í heiminum - og hægt er að skapa fleiri skemmtilegri og heilbrigðari leiðir að hagstæðum fatakaupum. Þegar eitthvað verð er of gott til að vera satt, þá er einhver annar í framleiðslukeðjunni að bera kostnaðinn fyrir þig.

 -

Við erum ótrúlega þakklát fyrir öll þau jákvæðu viðbrögð sem við höfum fengið í kjölfar þessarar yfirlýsingar - og tökum við þessum mikla áhuga á málefnum fataframleiðslu fagnandi. Við munum halda áfram að koma okkar hugsjón um heilbrigði fatainnkaup á framfæri - og trúum að það sé nauðsynlegur þáttur í því að umbreyta menningu í kringum neyslu og ofneyslu á fatnaði í samfélaginu okkar. 


Hvert fara SHEIN vörur ef ekki í endursölu eða til góðgerðarsamtaka? 

Móttökustöðvar SORPU hafa sérstakan gám fyrir eitraðan úrgang - við komu skal tilgreina að um eitraðan textíl sé að ræða, og starfsfólk beinir á réttan stað. Okkur finnst mikilvægt að taka fram að skila þessum fatnaði alls ekki í gáma góðgerðarsamtaka - þar sem þau myndu halda áfram að eitra notendur og umhverfið. 


Heimildir og nánari upplýsingar:

Kjarninn; gaf út grein sem fjallar um starfsemi SHEIN í samhengi við hraðtísku: Kjarninn

Kanadíska ríkissjónvarpið; vann rannsókn á efnainnihaldi fatnaðs árið 2021; CBC.CA

GoodOnYou; app/heimasíða sem gefur fatamerkjum einkunn eftir gæðum í framleiðslu og starfsemi: GoodOnYou

Fashion FWD; non-profit samtök sem fræða um efnis innihald í fatnaði. Skýrsla um PFAS efni í fatnaði og áhrif: PFAS Report

WHO; Blýmengun veldur m.a óafturkræfum skaða á taugakerfi fólks og eru börn mun viðkvæmari en fullorðnir. WHO

John Oliver; Hversu mikið mál er smá blý. YouTube

Thread umfjöllun, þar sem finna má nýlega heimildarmynd frá Channel 4 um vinnuaðstæður í verksmiðjum sem framleiða fyrir SHEIN: Thread


Hjálpumst að við að skapa betri framtíð í fataneyslu.

xoxo, starfsfólk Hringekjunnar

 

Skráðu þig á póstlistann. Fáðu nýjustu fréttir og tilboð send

Translation missing: is.blogs.article.news