Anna Margrét Björnsson tók viðtal við okkur fyrir hönd Stundarinnar
Misstu vinnuna í Covid og opnuðu hringrásarverslun
„Eftir að við misstum bæði vinnuna með dags millibili í byrjun Covid-faraldursins varð kjörið tækifæri fyrir okkur að gera eitthvað í sameiningu,“ útskýrir Davíð Örn Jóhannsson, sem nú í byrjun janúar opnaði verslunina Hringekjuna ásamt eiginkonu sinni, Jönu Maren Óskarsdóttur. „Í byrjun sumars keyptum við okkur 94’ tjaldvagn og eyddum mestum hluta sumarsins úti á landi, sem voru kjöraðstæður til að láta hugann reika. Grunnhugmyndin skaut upp kollinum í spjalli með vinum á Seyðisfirði í ágúst og erum við búin að vinna að þessu sleitulaust síðan.“
Fylla á bása og halda þeim snyrtilegum
Jana segir að þau kalli þetta hringrásarverslun með fatnað og fylgihluti. „Okkur langaði að finna eitthvert íslenskt hugtak yfir starfsemi á borð við okkar þar sem notast hefur verið við hugtakið „loppubúðir“, sem er tekið úr dönsku. Eftir því sem við komumst næst, eftir óvísindalegar Google-niðurstöður, er um nýyrði að ræða og vonumst við til að því verði vel tekið. Hringrásarverslunin byggir á því að leigja rými til viðskiptavina í þeim tilgangi að selja sinn fatnað og fylgihluti,“ útskýrir Jana.
„Rýmið sem um ræðir er 80 cm fataslá og hilla ásamt 56L lagerkassa. Okkar hugmyndafræði snýst um það að þú verðleggur þínar vörur og kemur með þær til okkar í uppsetningu í upphafi leigutímabils, fyllir þína slá, þína hillu og kemur öðrum vörum fyrir í lagerkassa sem við nýtum svo til áfyllingar fyrir þína hönd. Við sjáum einnig um að halda þínum bás snyrtilegum. Þetta sjáum við um fyrir hönd viðskiptavina okkar, því við viljum sjá til þess að utanumhald viðskiptavina okkar sé sem einfaldast.“
Fundu húsnæði rétt hjá heimilinu
Hringekjan er stödd rétt hjá Hlemmi, að Þórunnartúni 2, en þau segja hugmyndina að hluta til sprottna á skorti á hringrásarverslun af þessari gerð á miðbæjarsvæðinu. „Við vorum búin að skoða mikið af húsnæði á og í kringum Laugaveg, fyrir ofan og neðan Hlemm, þegar okkur var bent á húsnæði í Þórunnartúni sem var laust. Það er virkilega fallegt hornrými sem okkur leist strax vel á,“ segir Jana. „Svo var ekkert annað að gera en að byrja að teikna og reyna að hanna rýmið út frá þeirri hugmynd sem við vorum búin að vera að vinna að samhliða húsnæðisleitinni. Á endanum urðum við nægilega sátt, létum til leiðast og hófumst handa við að útfæra og smíða,“ bætir Davíð við.
„Það skemmir ekki fyrir að sjálf búum við örfáa metra frá Þórunnartúni 2,“ segir Jana. „Svo erum við virkilega spennt fyrir því að lífga upp á nærumhverfið á næstu mánuðum og árum. Við höfum til að mynda nú þegar fengið til liðs við okkur DJ KES, sem hefur spilað hjá okkur tvo laugardaga, og gerum ráð fyrir að vera með fleiri uppákomur þegar fram líða stundir, svo sem listasýningar og annað, svo það er um að gera að fylgjast með.“
Vör við vitundarvakningu
Viðbrögðin við versluninni hafa verið gríðarlega jákvæð segja þau. „Við verðum vör við að það er komin í gang alvöru vitundarvakning í þessum efnum. Það er okkar einlægi vilji að styðja við þessa þróun eins og við getum. Það gleður okkur virkilega að viðskiptavinir okkar eru á öllum aldri, allt frá unglingum yfir í eldri borgara, bæði sem seljendur og kaupendur, sem sýnir okkur að áhuginn sé meðal allra aldurshópa.“ Alls kyns flíkur hafa ratað til þeirra segja þau, allt frá hinum ýmsu hönnunarflíkum, töskum, pelsum og allt milli himins og jarðar.
„Bræðurnir í Endurtakk eru til að mynda með bás hjá okkur en þeir eru að búa til götutískufatnað úr endurnýttum efnum sem þeim áskotnast úr hinum og þessum áttum, svo sem svefnpokum, flísteppum og gallaefni svo eitthvað sé nefnt. Við erum líka hrikalega stolt af því að vera með eitthvað fyrir alla af öllum kynjum og munum gera hvað við getum til að halda því til frambúðar.“
Greinina má lesa í heild sinni hér: https://stundin.is/grein/12916/