Hringekjan er hringrásarverslun með fatnað og fylgihluti þar sem aðal áherslan er lögð á að leigja rými til viðskiptavina þar sem þeir selja sínar notuðu flíkur. Hringekjan er þó líka margt fleira, við höldum meðal annars hálfsmánaðarlega tónlistarviðburði þar sem við höfum fengið til liðs við okkur frábæra listamenn til þess að skemmta okkur og viðskiptavinum okkar.
Fyrri sem og eldri viðburði má sjá á events.hringekjan.is og upptökur má nálgast á mixcloud.com/hringekjan. Einnig höfum við staðið fyrir listasýningum og verið í samstarfi með hönnuðum sem hafa verið að endurvinna textíl í nýjar vörur. Þessu munum við halda áfram og þróa okkur áfram, með umhverfið og sköpun að leiðarljósi.
Hjá okkur geta einstaklingar bókað rými til þess að selja notaðan fatnað og fylgihluti úr sínum fataskápum. Þú einfaldlega bókar rými og verðleggur vörurnar þínar í gegnum tölvukerfið okkar. Við komuna erum við búin að útbúa merkispjöld og útvegum þér þjófavarnir, sem þú kemur fyrir á þínum vörum.
Hverju rými fylgir lagerkassi sem við nýtum til áfyllinga á rýmið þitt út tímabilið og eru áfyllingar á lager velkomnar á meðan leigu stendur.Við sjáum svo um áfyllingar, viðhald og þrif á meðan leigutímabili stendur en í lok leigu tökum við svo niður þær vörur sem ekki seldust, tökum af þeim merkispjöld (sem við endurnýtum), þjófavarnir og komum fyrir í poka sem bíður þín að lokinni leigu.
Frá upphafi höfum við lagt mikla áherslu á góða þjónustu og lagt mikið upp úr því að verslunin okkar sé sem hlýlegust en þess má geta að hillukerfið sem við hönnuðum og smíðuðum inn í rýmið var hannað með það að markmiði að flíkurnar fengju að njóta sín sem best í skemmtilegu umhverfi.